Áherslur

Skólinn

Heilsueflandi grunnskóli

Víðistaðaskóli er formlega þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli á vegum Lýðheilsustöðvar.

Eitt helsta markmið heilsueflandi grunnskóla er að vinna markvisst að því að efla og stuðla að velferð og góðri heilsu nemenda, starfsfólks og samfélagsins. Í heilsueflandi grunnskóla er sérstök áhersla lögð á eftirfarandi átta þætti skólastarfsins:

  1. Nemendur.
  2. Mataræði og tannheilsa
  3. Heimili.
  4. Geðrækt.
  5. Nærsamfélag
  6. Hreyfing og öryggi
  7. Lífsstíll.
  8. Starfsfólk.

Víðistaðaskóli hefur sett sér heilsustefnu sem er byggð á markmiðum, stefnu og gildum sem eru til staðar í skólanum ásamt því að stuðst er við markmið Heilsueflandi grunnskóla.

SMT-skólafærni

Markmið SMT er að skapa jákvæðan skólabrag og tryggja öryggi og velferð allra í skólasamfélaginu. Áhersla er á að veita jákvæðri hegðun markvisst athygli og draga þannig úr óæskilegri hegðun nemenda, auk þess að þjálfa félagsfærni og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart óæskilegri hegðun.

Skýrar og sýnilegar reglur

Skólareglur Víðistaðaskóla byggja á leiðarljósum skólans: ábyrgð, virðing og vinátta. Skólahúsnæðinu er skipt upp í svæði og gilda ákveðnar reglur á hverju svæði fyrir sig. Reglur eru kenndar eftir ákveðinni áætlun og gerðar sýnilegar á þeim svæðum sem þær gilda um.

SMT- skólafærni stendur fyrir School Management Training og byggir á PMT- foreldrafærni (Parent Management Training) sem er kenning Dr. Gerald Pattersons og er oft kennd við Oregon-fylki í Bandaríkjunum, þar kallast hún Positive Behavior support (PBS).

Álfamiðar og fyrirmyndabekkir

Í skólanum og frístund eru notaðir álfamiðar með leiðarljósum skólans: Ábyrgð – Virðing – Vinátta. Nemendur fá álfamiða fyrir jákvæða og uppbyggjandi hegðun. Einnig eru fyrirmyndabekkir verðlaunaðir með orðu fyrir að ganga vel um skólann almennt, skóhillur, matsal, á göngum og úti á skólalóð.

Nemendur safna álfahrósmiðum og þegar ákveðnum fjölda er náð fær hópurinn að velja sér umbun, til dæmis: 

  • spilatími
  • horfa á mynd
  • fara í leiki
  • koma með sparinesti
  • pálínuboð
  • fara út að renna

Eineltisáætlun

Einelti er ekki liðið í Víðistaðaskóla. Leitað er allra leiða til að fyrirbyggja eða stöðva og leysa einelti á farsælan hátt. Í skólanum eru skýrar reglur og vinnuferli ef upp kemur einelti. Öflugar forvarnir gegn einelti byrja við upphaf skólagöngu og er viðhaldið til loka skólagöngu nemenda.

Skilgreining á einelti

Einelti er skilgreint sem síendurtekin og langvarandi hegðun sem veldur vanlíðan hjá þeim sem verður fyrir henni . Einelti felur í sér að nemandi er tekinn fyrir af einum eða fleiri nemendum með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum, sögusögnum, andlegri kúgun og hótunum af ýmsu tagi sem kemur þolanda illa.

Birtingarmyndir eineltis geta verið fjölmargar, bæði duldar og sýnilegar. Einelti getur verið félagsleg útskúfun þannig að barn sem verður fyrir henni er ekki fullgildur þátttakandi í félagsskap eða leik. Einelti getur einnig komið fram með því að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki undir einelti.

Tilkynna um einelti

Umsjónarkennari er ábyrgur fyrir að leysa og uppræta eineltismál sem upp koma í hans umsjónarbekk. Í forföllum umsjónarkennara getur námsráðgjafi eða stjórnandi hafið vinnslu í málinu án þess að upplýsa foreldri í upphafi könnunar. Mikilvægt er að byrja strax að vinna að máli þegar grunur um einelti vaknar.

Skref 1. Grunur um einelti

Ef vinnsla máls leiðir í ljós að ekki er um einelti að ræða er málinu lokið formlega með undirskrift foreldra meints þolanda. Á sama tíma eru gerðar viðeigandi ráðstafanir til lausnar á vandanum eftir eðli hvers máls. Öll málsgögn eru send til nemendaverndarráðs til yfirferðar.

Skref 2. Rökstuddur grunur um einelti

Ef um rökstuddan grun um einelti er að ræða er málinu vísað til nemendaverndarráðs að lokinni könnun á skrefi 1 til frekari úrvinnslu. Nemendaverndarráð setur málið í ferli og skipar tilsjónarmann með umsjónarkennaranum til að vinna áfram að málinu. Tilsjónarmaður máls getur kallað annað starfsfólk til telji hann þörf á því. Mikilvægt er að gott upplýsingaflæði sé á milli þeirra sem að málinu koma.

Tilsjónarmaður og umsjónarkennari vinna samkvæmt aðgerðaráætlun.

Eineltisteymi

Í skólanum er eineltisteymi sem heldur fundi tvisvar í mánuði og oftar ef þurfa þykir. Eineltisteymið fer yfir allar tilkynningar um einelti, styður við þá sem eru að vinna úr málum og tryggir að unnið sé eftir áætlun skólans. Í ráðinu eru fulltrúi stjórnenda, námsráðgjafi og deildarstjóri.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Bekkjarsáttmáli

Mikilvægt er að nemendur ásamt umsjónarkennara búi til bekkjarsáttmála í byrjun skólaárs sem er sýnilegur í heimastofu.

Fræðsla um einelti

Umsjónarkennarar fræða nemendur um einelti og afleiðingar þess jafnt og þétt yfir allt skólaárið. Umsjónarkennarar nýta Vinavikuna til þess að efla samskiptin og fara yfir eineltishringinn ásamt því að rifja upp: hættu, gakktu og segðu frá.

Hópefli

Umsjónarkennari leitast við að styrkja bekkjarhópinn sem heild með hópefli. Umsjónarkennari gætir þess að allir nemendur séu hluti af bekknum og enginn skilinn út undan. Ef umsjónarkennari verður var við útilokun eða klíkumyndun leitar hann leiða til þess að uppræta slíkt atferli.

Fylgjast með

Einelti þrífst vegna aðgerðarleysis fjöldans. Þess vegna er mikilvægt að taka meðvitaða afstöðu gegn einelti. Kennarar og starfsfólk fylgist ávallt vel með líðan nemenda og breytingum í félagahópi.

Bekkjarfundir

Bekkjarfundir eru haldnir reglulega og skapa gott tækifæri til að ræða og leysa mál.

Kannanir

Umsjónarkennarar leggja fyrir samskipta-, tengsla- eða eineltiskönnun til að fylgjast með nemendahópnum. Tengslakönnun er gott tæki til þess að sjá hvort einhverjir nemendur séu einangraðir félagslega og unnið er þá út frá niðurstöðunum til að bæta úr.