Áherslur í námi og kennslu

Nám og kennsla

Hver bekkur (hópur) er með einn eða fleiri umsjónarkennara í teymiskennslu sem eru lykilmanneskjur í öllu skólastarfinu.

Umsjónarkennarar

Umsjónarkennari er sá aðili innan skólans sem þekkir sína nemendur einna best og getur veitt þeim mestan stuðning í náminu. Á yngsta- og miðstigi sér umsjónarkennari um kennslu flestra greina nema sérgreina og íþrótta. Í 8.–10. bekk kenna flestir umsjónarkennarar að minnsta kosti eina námsgrein í bekknum auk þess að kenna lífsleikni í sínum umsjónarbekk.

Foreldrar bera ábyrgð á námi barna þeirra og ætlast er til að foreldrar fylgist með náminu í samvinnu við barnið og kennara.

Teymiskennsla

Teymiskennsla (e. team teaching) er skilgreind sem þeir starfshættir þar sem tveir eða fleiri kennarar eru samábyrgir fyrir árgangi eða aldursblönduðum hópi, undirbúa sig saman og kenna að einhverju marki saman. Við höfum verið að þróa teymiskennslu þar sem kennararnir deila með sér kennslu allra nemenda. Í hefðbundinni teymiskennslu bera kennararnir jafna ábyrgð á öllum nemendum og eru virkir í kennslustundum.

Við veljum teymiskennslu til að koma betur til móts við þarfir nemanda. Kennarar undirbúa námsumhverfi, útfæra námið og kennsluna saman. Ólíkum hópum er blandað saman, hópum sem vinna og passa vel saman, stundum eftir færni eða áhuga á fjölbreyttan hátt. Þetta form hefur í för með sér marga kosti varðandi sameiginlega ábyrgð á nemendum og að kennarar geti spjallað um nám og kennslu og átt faglegar umræður sem leiða til fjölbreyttari kennsluhátta.  

Kennarar fá um leið aðstoð og stuðning hver frá öðrum. Teymiskennsla losar um einangrun kennara í starfi. Við skipulag kennslunnar skapast aðstæður þar sem hægt er að viðurkenna fjölbreytta hegðun og koma til móts við börn sem eru skemmra komin á einhverju sviði þroskans en jafnaldrar. Það eflir og styrkir námsáhuga og sjálfsmynd þeirra.