Skólinn

Víðistaðaskóli er teymiskennsluskóli með fjölbreytta kennsluhætti. Í skólanum eru 2 bekkjardeildir á yngsta stigi, 3 bekkjardeildir á miðstigi og 3–4 bekkjardeildir á elsta stigi. Í upphafi skólaársins 2023–24 voru um 520 nemendur í skólanum.

Skólahverfið

Skólahverfi Víðistaðaskóla markast af svæðinu sunnan Hjallabrautar og vestan Reykjavíkurvegar að Fjarðargötu og í vestri að bæjarmörkum Garðabæjar. Börn hafa forgang í þann hverfisskóla þar sem þau eiga lögheimili en hægt er að sækja um skólavist í öðrum skólum. Sjá nánar um innritun í grunnskóla.

Víðistaðaskóli er staðsettur í einstöku umhverfi en skólinn kúrir í hrauninu, innan um mjög fjölbreytta náttúru og manngerð svæði sem eru til gagns og ánægju og nýtast vel við útikennslu.

Leiðarljós

Leiðarljós Víðistaðaskóla eru: Ábyrgð – Virðing – Vinátta og er skólastarfið í anda þeirra. Í Víðistaðaskóla er lögð áhersla á að undirbúa nemendur undir framtíðina á lýðræðislegan hátt. Skólinn vinnur í anda lýðræðis og eru haldin sérstök þing þar sem ýmis mál eru rædd, þessi vinna er einnig tengd Barnasáttmálanum.

Lögð er áhersla á að rækta með nemendum umburðarlyndi, víðsýni og ábyrgð ásamt virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Með því er lagður grundvöllur að sjálfstæðri hugsun nemenda og hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Einnig er lögð áhersla á að veita þeim tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð og reglusemi sem stuðlar að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska svo nemendur geti nýtt þau tækifæri sem lífið býður upp á.